i kring,art,iceland,reykjavik,exhibition

NÚVERANDI / NÆSTA SÝNING

„Í kring” er samfelld sýningaröð sem nær allt árið um kring og sérhver sýning er á öllum þremur kaffihúsum í einu. Gestir eru hvattir til að fá sér lystigöngu um miðbæinn til að ná fyllilega utan um sýninguna og staldra við á sérhverjum sýningarstað til að nálgast heildarmynd af verkum listafólksins. Markmið okkar er að koma á framfæri íslensku jafnt sem erlendu listafólki af sem fjölbreyttasta tagi, allt frá þekktum nöfnum til eftirtektarverðra nýgræðinga.

Á undanförnum áratugum hefur Reykjavík þróast í líflega mynd- og tónlistarsmiðju, sem stöðugur straumur fólks og hugmynda blæs lífi í og kyndir undir. Frá opnun fyrsta kaffihússins okkar á Kárastíg höfum við fylgst með þessari orku stigmagnast, þar sem hún flæðir gegnum dyrnar í kjölfarið á þeim dásamlega hópi listafólks sem sækir okkur heim.

Kárastígur umbreyttist fjótlega úr því að vera tilvalinn staður til að fá sér kaffisopa yfir í það að vera rými fyrir fólk til að hittast, vinna saman, mynda tengsl og fá puttann á púlsinn á því sem var að gerast í borgarlífinu. Við erum hæstánægð með það andrúmsloft sem þar hefur myndast.

Nokkrum árum síðar opnuðum við nýrra og bjartara rými okkar í Brautarholti, gegnt Listaháskólanum, þar sem ungt, skapandi fólk safnast saman daglega, ýmist til að læra eða slaka á.

Nú, næstum ári eftir að við opnuðum kaffihús okkar í Ásmundarsal, stingum við okkur hins vegar á bólakaf í hin úfnu djúp listasenu Reykjavíkur.

Með „Í kring‟ erum við meðvitað að reyna að endurgjalda því samfélagi sem hefur stutt okkur svo lengi, með því að færa list inn á óvænta staði og gera hana aðgengilega sem flestum.

Við teljum okkur sjá að þrátt fyrir að Reykjavík úi og grúi af galleríum, listasöfnum, vinnustofum og opnum rýmum þá geti þeir einstaklingar sem ekki séu í beinni snertingu við listasenuna auðveldlega orðið afhuga henni. Alltof oft er fólk sannfært um það að um leið og það stígur fæti inn fyrir fyrrnefnd rými séu á það lagðar ýmsar kröfur – eins til dæmis að nauðsynlegt sé að hafa ákveðnar skoðanir á því sem fyrir augu ber, eða það þurfi að festa kaup á einhverju.

Með því að safna saman úrvali af verkum ólíkra listamanna og sýna þau í því afslappaða umhverfi sem kaffihúsin okkar þrjú hafa upp á bjóða vonumst við til þess að ná til þessa áður afskipta hóps og gera reyndar sem flestum kleift að njóta listar á frjálslegan máta.

ÞRJÚ SÝNININGARÝMI OKKAR Í REYKJAVÍK 

SÝNINGAR

SÆKJA UM

Við erum í þann mund að skipuleggja næsta ár og köllum eftir fleira listafólki til að leggja okkur lið. Þess er vert að taka fram að listaverkin þurfa ekki að takmarkast við einhvern sérstakan miðil svo lengi sem þau standast skilyrði sýningarnefndar okkar. Umsóknir skuli berast til julie@reykjavikroasters.is og þurfa að innihalda dæmi af listaverkum viðkomandi, lífshlaup og hverju listamaðurinn vill áorka með verkum sínum.

0