Sýningin opnar 19. júlí. Við þetta tilefni viljum við bjóða ykkur í lystigöngu sem byrjar í Brautarholti 2 kl 16.30. Síðan er haldið leið sinni á Kárastíg 1 um klukkan 17:00 og við endum í Ásmundarsal á Freyjugötu 41 kl 17.30. Við munum skála á hverju kaffihúsi fyrir sig og allir eru velkomnir!
Sýningarnar þrjár eru í raun ein heild og lýsa upphafi, miðbiki og endalokum listamannsins.
Með myndlist sinni kafar Sigurður Ámundason ofan í sínar dimmustu hliðar og björtustu vonir. Myndefnið er oft klassískar orrustur milli góðs og ills í bland við óútskýranlegt öngþveiti undirmeðvitund hans. Teikningar hans eru gerðar fríhendis og án nokkurra skyssa og lýsa gjarnan þráhyggju, reiði og efasemdum listmannsins sem gerir sitt besta í hinum sí furðulegri hversdagsleika.
Á Kárastíg sýnir Sigurður fjölda teikninga gerðar með kúlupenna og trélitum á pappír. Í þessum verkum má sjá beina leið í dimmar eða ofsafengnar hliðar listamannsins.
Í Brautarholti má sjá stærðarinnar ljósmynd sem sýnir foreldra Sigurðar keyra út á landi. Í baksýnispeglinum má sjá glitta í listamanninn í aftursætinu brosandi. Ljósmyndin heitir Upphaf mannsins og táknar fæðingu/sköpun listamannsins.
Í Ásmundarsal sýnir Sigurður svo teikningar gerðar með blýanti á pappír sem lýsa listamanninum sjálfum á dánarbeði sínu. Listamaðurinn blandar þar saman klassískum og rómantískum myndefnum – sjálfsmynd og dauðann – svo saman verði birtingarmynd dauða sjálfsins eða umbreytingar listamannsins sem gengur í gegnum tímamót.
—
Sigurður Ámundason fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr bakkalárnámi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan haldið ellefu einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýningu og flutt tugi gjörninga. Sigurður notast mest við teikningar en skapar einnig innsetningar, skúlptúra, vídeóverk, bókverk, ljósmyndir og leikverk.