KAFFIHÚSIN

ÁSMUNDARSALUR

Þriðja kaffihúsið opnaði á haustdögum 2018. Listsköpun og kaffidrykkja hefur lengi haldist í hendur og þykir okkur því kjörið að brugga kaffi fyrir alla þá listunnendur sem sækja Ásmundarsal heim við Freyjugötu 41. Nýjasta kaffihúsið okkar er staðsett í setustofunni á fyrstu hæð, þar sem hægt er að fletta í gegnum listaverkabækur og rit frá öllum tímum listasögunnar og njóta góðs kaffis um leið. Við erum full eftirvæntingar að taka á móti gestum og um leið stolt að fá að fylla þetta sögufræga hús af heimilislegum kaffiilm.

+354 835 0644

Virkir dagar: 8:30 – 16:00

Laudardagar: 09:00 – 17:00

Sunnudagar: 09:00 – 17:00

KÁRASTÍGUR

Upprunalega kaffihúsið opnaði í lok árs 2008 undir nafninu Kaffismiðja Íslands. En á vordögum árið 2013 gekkst það undir endurnýjun lífdaga og fékk nafnið Reykjavík Roasters. Húsið var byggt árið 1929 og eitt sinn var tvískipt verslun í rýminu. Öðru megin var nýlenduvöruverslun og hinum megin mjólkurbúð þar sem selt var skyr og mjólk í lausu eins og tíðkaðist í þá daga. Allt til loka árs 2017 var öll ristun og kaffiframleiðsla staðstett á Kárastíg, en vegna aukinna umsvifa fluttum við hana í Auðbrekku í Kópavogi í janúar 2018. Að launum fékk Kárastígur dýrmætt sætapláss fyrir viðskiptavini.

+354 517 5535

Virkir dagar: 08:00 – 17:00

Laugardagar: 08:00 – 17:00

Sunnudagar: 08:00 – 17:00

BRAUTARHOLT

Annað kaffihúsið opnaði í ágúst árið 2015 í Brautarholti 2, þar sem Japis og síðar Hljóðfæraverslunin Rín voru eitt sinn til húsa. Þar er metnaðarfullur bruggbar þar sem við bruggum kaffi og te af miklum móð fyrir gesti og gangandi. Við einblínum á uppáhellingu uppá gamla mátann, en sú áhersla skapar fullkomið kaffihúsaandrúmsloft og notalega stemningu sem fylgir hverjum bolla. Auk þess er matseðill okkar gerður með drykkina okkar sérstaklega í huga og ættu að færa öllum sælkerum góðar stundir. Á meðan er hægt að leika sér að því að bragðgreina kaffið sitt, en á einum veggnum er listaverk eftir Rán Flygenring sem hægt er að nota til að koma orðum nákvæmlega að því sem maður er að bragða.

+354 5713102

Virkir dagar: 07:00 – 17:00

Laugardagar: 07:00 – 17:00

Sunnudagar: 07:00 – 17:00

0