In Tónleikar

1. maí 

ATLAS, fyrsta breiðskífa lagahöfundarins Marteins Sindra Jónssonar, kemur út 16. maí á stafrænum miðlum og á vínylplötu um miðjan september 2019 samhliða útgáfutónleikum í Iðnó.

Marteinn er píanóleikari að upplagi en lagði sig eftir því að læra á gítar þegar hann fór að syngja eigin tónlist. Við gerð plötunnar rataði þó mikið af tónlistinni, sem liggur einhversstaðar á mörkum þjóðlaga, framúrstefnu og popptónlistar, aftur á píanóið. Marteinn hefur flutt tónlistina af plötunni víða í aðdraganda plötunnar bæði einn síns liðs og í góðum félagsskap. Hann hefur meðal annars komið fram á miXmass hátíðinni í tónleikahúsinu De Singel í Antwerpen, Melodica Festival í París og Reykjavík, ljóðahátíðinni í Vicenza á Ítalíu, Innipúkanum, Þjóðlagahátíð og LungA svo fátt eitt sé nefnt.

Platan ATLAS var um fjögur ár í smíðum og afraksturinn er víðfeðmur hljóðheimur með kjölfestu í einföldum lagasmíðum þar sem gjarnan bregður fyrir ljóðrænum landslagsmyndum náttúru og tilfinninga, sveipuðum goðsagnakenndum blæ. Í textunum á plötunni er gjarnan ort um undarlega staði – ímyndaða eða raunverulega – og þá sérstæðu reynslu að vaxa úr grasi og þurfa að standa á eigin fótum. Landslag plötunnar er undir áhrifum þeirrar viðleitni að ætla sér að kortleggja og mæla heiminn. Slíkt orkar ætíð tvímælis – eins og titill plötunnar ber með sér. Þó Atlas sé kort af heiminum þá er það líka nafn goðsagnaverunnar sem beið þau vonlausu örlög að þurfa að bera heiminn á herðum sér.

Platan er afrakstur náinnar og vandlegrar samvinnu. Daníel Friðrik Böðvarsson sem stýrði upptökum á plötunni hefur nært verkefnið frá upphafi, í hljóðverum í Reykjavík og Berlín. Albert Finnbogason hljóðritaði og hljóðblandaði plötuna auk þess að taka virkan þátt í upptökustjórn á meðan að Bergur Þórisson helgaði frumupptökum bæði tíma og orku. Allir þrír lögðu sitt af mörkum sem tónlistarmenn, ásamt hópi innlendra og erlendra listamanna. Þau eru Magnús Trygvason Eliassen, Shahzad Ismaily, Ólafur Björn Ólafsson, Óttar Sæmundsen, Gyda Valtysdottir, Jelena Ćirić, Arna Margrét Jónsdóttir, Katrin Helena Jonsdottir og Örn Ýmir Arason. Sarah Register á síðan heiðurinn að masteringunni. Útsetningarnar á plötunni og samspilið við þetta listafólk víkka út frásagnarheiminn með spunakenndum skírskotunum í ýmsar ólíkar stefnur og stíla. Útkoman er hljómkviða sem rambar á mörkum þess hversdagslega og þess kosmíska.

Ólafur Þór Kristinsson og Katrin Helena Jonsdottir eiga heiðurinn að sjónsmíðum við plötuna en þar mætir fagurfræði goðsagnarinnar stærðfræðilegri nákvæmni vísindanna. Þá hefur Blair Alexander Massie framleitt tónlistarmyndbönd í tengslum við útgáfu plötunnar.

Verkefnið naut stuðnings úr hljóðritasjóði RANNÍS og upptökusjóði STEFs.

0