FRÓÐLEIKUR UM KAFFIÐ

Við erum í sífellu að læra eitthvað nýtt um kaffi og í raun er þekkingaöflun okkar helsti drifkraftur. Kaffifagið gefur okkur þann kost á að vera beggja vegna borðsins, þ.e bæði nemendur og leiðbeinendur í þeirri flóknu leið frá uppskeru til uppáhellingar. Við trúum því að miðlun þekkingar og gegnsæi sé lykillinn að því að kaffiiðnaðurinn taki framförum sem heild.

VINNUSMIÐJA

#betrakaffiheima er tilvalið fyrir ykkur sem viljið fínpússa uppáhellinguna heima. Við förum yfir og prófum fjórar algengar aðferðir við að gera kaffi með það að markmiði að hvert og eitt ykkar finnið besta bragðið útfrá eigin smekk.

Tveir reyndir leiðbeinendur verða til staðar og gefa góð ráð við kaffigerð og hvernig er best að hámarka nýtingu kaffisins.

Þetta er ekki námskeið. Það er enginn fyrirlestur. Bara fullt af kaffi og nægur tími til að leika sér.

#betrakaffiheima verður haldið í Brautarholti 2 og er pláss fyrir hámark 6 manns í senn. Það kostar 7900 krónur á vinnusmiðjuna og fylgir með 10% innanhússafsláttur á kaffi og kaffibúnaði sem gildir meðan á námskeiðinu stendur.

Hægt er að skrá sig og nálgast frekari upplýsingar með því að senda póst á dussy@reykjavikroasters.is

Kaffi 101

Kaffi 101 er tilvalið námskeið fyrir áhugamanninn, hópa eða kaffibarþjóna til að kynnast uppruna plöntunnar og vegferð frá framleiðanda til neytandans. Allt um ræktun og vinnslu í mismunandi heimshlutum og hvernig jarðvegur, veðrátta og loftslag hefur áhrif á bragðið.  Einnig verður gefin innsýn inn í heim ristunar og svo í lokin verður smökkun á tegundum hússins.

Þetta námskeið er í formi fyrirlesturs og umræðna.

Kaffi 101 er haldið í Brautarholti 2.

Hægt er að skrá sig og nálgast frekari upplýsingar með því að senda póst á torfi@reykjavikroasters.is

0